Innanlandsstarf
Mikilvægt að fá að vera til staðar fyrir fólk í afplánun
08. júlí 2025
„Kannski kæmi það einhverjum á óvart hvað margir af þeim einstaklingum sem þiggja Aðstoð eftir afplánun eru skemmtilegir, með góða nærveru og gaman að tala við þá,“ segir sjálfboðaliðinn Pétur Kristófersson.

„Ég upplifi að ég sé að gera eitthvað gagn, bæði í þágu samfélagsins en svo finnst mér enn mikilvægara að fá að vera til staðar fyrir þá sem þiggja Aðstoð eftir afplánun og eru þátttakendur í verkefninu. Það eru auðvitað fyrst og fremst þau sem taka þátt sem þetta snýst allt um.“
Þetta segir Pétur Kristófersson, rannsakandi við sálfræðideild Háskólans á Akureyri, um sjálfboðaliðastörf sín hjá Rauða krossinum á Íslandi. Í tvö ár hefur hann verið sjálfboðaliði í verkefninu Aðstoð eftir afplánun sem ætlað er fólki sem hefur lokið afplánun í fangelsi eða er enn í afplánun. „Mín vinna hefur fyrst og fremst falist í að fara inn í fangelsin og spjalla við fanga um það sem skiptir þá máli hverju sinni,“ segir Pétur. „Þetta er fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir og við reynum okkar besta til að koma á móts við þær innan þess ramma sem verkefnið leyfir.“
Áhrifavaldar í eigin lífi
Að mörgu er að huga er líða fer að lokum afplánunar og er henni lýkur. Því er mikilvægt að fólk hafi stuðning til að takast á við allar þær breytingar. Þá er hægt að leita til Rauða krossins og fá að hitta sjálfboðaliða til að fara yfir málin. Sjálfboðaliðum er m.a. ætlað að aðstoða við ýmislegt er varðar daglegt líf eftir afplánun, s.s. húsnæðis- og atvinnuleit, viðtöl við félagsráðgjafa, skipulagningu fjármála en ekki síður að efla félagslegt öryggi einstaklinganna svo þeir öðlist tiltrú á að geta orðið áhrifavaldar í eigin lífi.
„Ég hafði lengi haft áhuga á að gerast sjálfboðaliði í mannúðarstarfi þar sem ég hef mikinn áhuga á fólki og samfélaginu,“ segir Pétur. „Rauði krossinn er góður vettvangur fyrir þá sem hafa áhuga á slíku.“

Með góða nærveru
Hann sótti um og segist hafa fengið góðan undirbúning fyrir sjálfboðaliðastarfið.
„Það voru haldin mjög flott námskeið þar sem verkefnið var kynnt af þeim sem eru yfir því,“ segir hann. Einnig hafi gestafyrirlesarar komið á námskeiðið, meðal annars réttarsálfræðingur og formaður Afstöðu. „Það var ótrúlega gaman á námskeiðunum. Mér fannst til dæmis mjög áhugavert að fá bæði sjónarmið þeirra sem vinna í fangelsinu og þeirra sem hafa verið í afplánun. Allir sjálfboðaliðar fara líka á skyndihjálparnámskeið. Öll námskeið eru sjálfboðaliðum að kostnaðarlausu. Þetta var mjög flottur námskeiðapakki.“
Pétur segir að vegna þessa góða undirbúnings hafi fátt komið á óvart er hann hóf að starfa sem sjálfboðaliði. „Kannski kæmi það einhverjum á óvart hvað margir af þeim einstaklingum sem þiggja Aðstoð eftir afplánun eru skemmtilegir, með góða nærveru og gaman að tala við þá.“
Spurður hvort hann mæli með því að gerast sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum stendur ekki á svari: „Alveg hiklaust! Ég vildi að ég hefði byrjað fyrr. Mig langar í raun bara að hvetja þá sem hafa áhuga á að verða sjálfboðaliðar í einhverju af verkefnum Rauða krossins til að láta vaða – það verður tekið vel á móti ykkur.“
Hér getur þú kynnt þér verkefni Rauða krossins, séð hvar þörfin er mest fyrir sjálfboðaliða og sótt um að gerast sjálfboðaliði.

Vissir þú að ...
þegar sjálfboðaliðar eru spurðir af hverju þeir vinna sjálfboðastörf er svarið iðulega löngunin að vera til staðar fyrir þau sem þurfa og gefa til baka til samfélagsins. Margir nefna líka að í sjálfboðastarfinu öðlist þau nýja þekkingu og hæfni, fái tækifæri til að nýta sína sérþekkingu og/eða reynslu, kynnist nýju fólki og efli tengslanet sitt.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Listsköpun, leikur og lærdómur
Innanlandsstarf 15. júlí 2025„Þetta voru góðar og gefandi samverustundir og mætingin var mjög góð,“ segir Yana Miz, verkefnisstjóri Wellbeing4U hjá Rauða krossinum, um uppskeruhátíð verkefnisins þar sem tugir flóttafólks frá Úkraínu á öllum aldri komu saman.

Stöðvum helvíti á jörðu
Alþjóðastarf 09. júlí 2025„Hörmungarnar á Gaza eru skuggi yfir mannkyni,“ skrifa framkvæmdastjórar sex íslenskra mannúðarfélaga. „Líf íbúa Gaza eru jafn mikils virði og líf annarra íbúa þessa heims, það ætti ekki að þurfa að taka fram, en engu að síður horfir heimurinn dofinn upp á íbúa Gaza svipta allri mannlegri reisn.“

Börn með skotsár á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins
Alþjóðastarf 03. júlí 2025„Við höfum séð allt að 200 særða á einum degi; með skotsár, brunasár, sár eftir sprengjubrot og aðra áverka,“ segir hjúkrunarfræðingur sem starfar á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah. „Við fáum til okkar börn með skotsár.“